Persónuverndarstefna – Bólusetningar
Vegna yfirstandandi faraldurs SARS-COV-2 veirunnar, sem veldur Covid-19 sjúkdóminum, hefur verið gripið til ýmissa úrræða til þess að hefta útbreiðslu farsóttarinnar. Eitt þeirra úrræða er að bjóða uppá bólusetningu gegn Covid-19 sjúkdóminum.
Einstaklingum 16 ára og eldri eru send um boð bólusetningu með SMS skilaboðum þar sem fram kemur tímasetning og hvaða bóluefni viðkomandi standa til boða.
Ungmennum á aldrinum 12-15 ára er boðið að mæta á bólusetningarstað á fyrirfram tilgreindum tíma ásamt forráðamanni. Upplýsingar um tímasetningar bólusetningar eru auglýstar í fjölmiðlum, á covid.is og einnig með tölvupóstum frá skólum.
Forsjáraðilum barna 5-11 ára er boðið að skrá börn sín í bólusetningu á vefsvæði með rafrænum skilríkjum, en þeir sem ekki hafa rafræn skilríki geta mætt á tilgreindum tíma á bólusetningarstað. Tölvupóstur með nánari upplýsingum er sendur af skólahjúkrunarfræðingi eða heilsugæslu viðkomandi barna.
Sóttvarnalæknir, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík, er ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við bólusetningu skv. 3. gr. sóttvarnalaga, sbr. 5. mgr. 12. gr.
Nánari upplýsingar um bólusetningar má nálgast hér: https://www.covid.is/bolusetningar
Hvaða persónuupplýsingar vinnum við?
Við boðun í bólusetningu 16 ára og eldri er aflað upplýsinga frá Þjóðskrá um alla þessa einstaklinga og um símanúmer allra einstaklinga 16 ára og eldri frá fjarskiptafélögum, að fenginni umsögn Persónuverndar og Fjarskiptastofu.
Auk þess var aflað upplýsinga um aðila sem tilheyrðu forgangshópum s.s. heilbrigðisstarfsmenn, starfsmenn viðbragðsaðila, vistmenn á hjúkrunar- og öldrunarheimilum, starfsmenn skóla og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma. Þessara upplýsinga var eftir atvikum aflað frá vinnuveitendum viðkomandi aðila, félagsþjónustu sveitarfélaga og með samkeyrslum á gagnagrunnum sem embætti landlæknis heldur og innihéldu upplýsingar um einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma. Öll vinnsla persónuupplýsinga fór fram að fengnu áliti og með leyfi Persónuverndar. Álit og leyfisbréf Persónuverndar má nálgast hér: https://www.personuvernd.is/personuvernd/frettir/samkeyrslur-hja-embaetti-landlaeknis-og-sottvarnalaekni-vegna-bolusetningar-vid-covid-19.
Uppplýsingar um þá sem óskuðu eftir því að höfnun þeirra á bólusetningu væri skráð eru vistaðar í smitsjúkdómaskrá og sjúkraskrá viðkomandi.
Við bólusetningu 12-16 ára var ekki um samkeyrslur eða söfnun upplýsinga að ræða við boð um bólusetningu, heldur var auglýst hvenær viðkomandi einstaklingum stóð til boða að mæta í bólusetningu. Við komu voru skráðar upplýsingar um viðkomandi einstaklinga, s.s. nafn og kennitala, hvaða bóluefni viðkomandi fékk og hvenær. Þær upplýsingar eru vistaðar í smitsjúkdómaskrá og sjúkraskrá viðkomandi.
Við bólusetningu 5-11 ára barna var aflað upplýsinga um forsjáraðila þeirra frá Þjóðskrá. Skólahjúkrunarfræðingar eða heilsugæsla viðkomandi annaðist útsendingu á tölvupósti þar sem forsjáraðilum er boðið að skrá barn sitt. Tölvupóstur var sendur á netföng forsjáraðila sem skráð voru hjá skóla viðkomandi barns. Forsjáraðilar skrá sig inná á vefsíðu með rafrænum skilríkjum þar sem upplýsingar um börn sem þeir hafa forsjá með á aldrinum 5-11 ára birtast og þeim er gert kleift að taka afstöðu til þess hvort þeir þiggi bólusetningu, hafni henni eða vilji þiggja hana síðar. Þá er einnig hægt að tilgreina aðila sem heimilað er að mæta með barnið til bólusetningar. Þessar upplýsingar eru vistaðar í bólusetningarkerfi sem er hluti af smitsjúkdómaskrá sóttvarnalæknis. Þegar forsjáraðili mætir með barn sitt til bólusetningar eru þessar upplýsingar aðgengilegar framkvæmdaaðila bólusetningarinnar. Skráð er hver fylgir barni til bólusetningar.
Þeir aðilar sem ekki eru með rafræn skilríki geta skráð börn sín með því að veita upplýsingar í gegnum þar til gerða vefsíðu. Við innskráningu er símanúmer viðkomandi staðfest. Við komu á bólusetningarstað er kannað í Þjóðskrá hvort sá sem fylgir barninu sé forsjáraðili.
Í öllum tilvikum eru upplýsingar um þá einstaklinga sem þiggja bólusetningu, s.s. nafn og kennitala, hvaða bóluefni viðkomandi einstaklingur fékk og hvenær eru skráðar í smitsjúkdómaskrá sóttvarnalæknis. Einnig voru upplýsingar skráðar í sjúkraskrá viðkomandi einstaklings af þeim sem framkvæmdi bólusetninguna.
Einstaklingar geta nálgast upplýsingar um bólusetningu sína á mínum síðum á Heilsuvera.is, hjá sinni heilsugæslustöð eða hjá sóttvarnalækni.
Vinnsluheimild
Vinnsla persónuupplýsinga byggir á heimildum og skyldum sóttvarnalæknis skv. sóttvarnalögum nr. 19/1997, gildandi reglugerð um sóttvarnaráðstafanir og reglugerð nr. 221/2001 um bólusetningar á Íslandi með áorðnum breytingum .
Skv. 3. gr. laganna skal sóttvarnalæknir halda smitsjúkdómaskrá þar sem m.a. annars skal skrá ónæmisaðgerðir, s.s. bólusetningar. Þá er sóttvarnalækni einnig heimil vinnsla persónuupplýsinga tengdum ónæmisaðgerðum vegna farsóttar skv. 2. og 5 mgr. 12. gr.
Þeim sem framkvæma bólusetningu, s.s. heilsugæslustöðvum, er skylt að skrá upplýsingar um bólusetninguna sbr. lög um sjúkraskrá nr. 55/2009 og 9. gr. reglugerðar nr. 221/2001, um bólusetningar á Íslandi með áorðunum breytingum.
Miðlun persónuupplýsinga
Upplýsingum sem unnar eru vegna bólusetningar við Covid-19 er eingöngu miðlað milli þeirra aðila sem standa að skipulagningu hennar og framkvæmd. Þannig er upplýsingum miðlað frá sóttvarnalækni til heilsugæslu um þá sem hyggjast þiggja bólusetningu til að unnt sé að framkvæma hana og þegar bólusetningu er lokið er upplýsingum miðlað í smitsjúkdómaskrá sem sóttvarnalækni heldur.
Að öðru leyti er upplýsingum ekki miðlað.
Öryggi persónuupplýsinga
Mikil áhersla hefur verið lögð á að tryggja öryggi við alla vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þær verði aðgengilegar óviðkomandi, þær misnotaðar, þeim breytt, eytt eða þær gerðar aðgengilegar.
Öll samskipti milli vefsíðu og gagnagrunna eru í gegnum dulkóðaðar tengingar. Aðgengi að gagnagrunnum er stýrt með öruggri auðkenningu og innskráningu og haldin er skrá yfir innskráningar. Aðgengi er aðeins veitt þeim sem nauðsynlega þurfa starfs síns vegna.
Allri gagnagrunnar eru hýstir í öruggu umhverfi, dulkóðaðir og varðir með eldveggjum. Sjálfvirk vöktun er vegna tölvuárása og tilrauna til að brjótast inn í gagnagrunna.
Þín réttindi
Þú átt rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar hafa verið skráðar um þig, ásamt því að fá afhent eintak af slíkum gögnum.
Þú átt rétt á að fara fram á að rangar persónuupplýsingar séu leiðréttar og að upplýsingum sé eytt. Rétt er að benda á að réttur til eyðingar upplýsinga er takmarkaður þar sem vinnsla upplýsinga s.s. varðveisla þeirra er lögbundin. Þú átt einnig rétt á því að mótmæla vinnslu persónuupplýsinga og óska eftir því að vinnsla þeirra sé takmörkuð.
Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa embættis landlæknis með tölvupósti á personuvernd@landlaeknir.is eða í síma 510-1900, óskir þú eftir frekari upplýsingum um vinnslu persónuupplýsinga eða til að koma á framfæri ábendingum sem varða hana. Þá er einnig hægt að senda póst merktan persónuverndarfulltrúi til Embætti landlæknis, Katrínartúni 2, 6. hæð, 105 Reykjavík.
Teljir þú að vinnsla persónuupplýsinga sé ekki í samræmi við þau lög sem um hana gilda getur þú sent erindi til Persónuverndar, postur@personuvernd.is.
Til baka í skráningarform